Neita því að Íslendingar stórgræði á þjónustunni í Pristina

Þorgeir Pálsson
Þorgeir Pálsson mbl.is/Jim Smart
Eftir Boga Þór Arason

bogi@mbl.is

Þorgeir Pálsson, forstjóri Flugstoða ohf., segir ekkert hæft í fullyrðingum, sem fram komu í sænska dagblaðinu Dagens Nyheter í gær, um að íslensk flugmálayfirvöld maki krókinn með umsjón uppbyggingarverkefna á alþjóðaflugvellinum í Pristina í Kosovo.

Dagens Nyheter birti ítarlega grein eftir blaðamanninn Maciej Zaremba um meinta spillingu í tengslum við uppbyggingarstarf Sameinuðu þjóðanna í Kosovo.

"Íslendingarnir fara ránshendi um flugvöllinn," hefur blaðamaðurinn eftir hagfræðingi á vegum SÞ í grein undir fyrirsögninni: "Land Sameinuðu þjóðanna og ræningjarnir sjö".

Blaðamaðurinn heldur því m.a. fram að íslensk flugmálayfirvöld hafi dregið verkefni á langinn, enda verðleggi þau þjónustu sína hátt. Sé til dæmis tölvukerfi eða sérfræðiráðgjöf keypt til flugvallarins renni 15% kaupverðsins beina leið til Reykjavíkur.

"Það stendur ekki steinn yfir steini í þessari umfjöllun blaðamannsins," sagði Þorgeir Pálsson, forstjóri Flugstoða og fyrrverandi flugmálastjóri í samtali við Morgunblaðið. Hann bætti við að í greininni kæmi t.a.m. fram sá misskilningur að íslensk flugmálayfirvöld hefðu annast rekstur flugvallarins í Pristina. Rétt væri að flugmálastjórn og síðar Flugstoðir ohf. hefðu tekið við því hlutverki að beiðni Sameinuðu þjóðanna að vera bakhjarl Pristina-flugvallar. Íslensku starfsmennirnir annast eftirlit með starfsemi flugvallarins í Pristina og veita heimamönnum ráðgjöf um rekstur og endurbætur á flugvellinum, auk þess að bera ábyrgð á flugumferðarstjórninni.

"Fullyrðingin um að við höfum verðlagt þjónustuna of hátt er algerlega út í hött," sagði Þorgeir og bætti við að greiðslurnar væru í fullu samræmi við samning sem gerður var við SÞ áður en Íslendingar tóku við verkefninu í Pristina fyrir tæpum þremur árum og hefur ítrekað verið endurnýjaður. Samningurinn byggðist á grundvallarreglum í samningnum sem gildir um alþjóðlegu flugumferðarþjónustuna.

"Heildarvelta verkefnisins á þessum tæpu þremur árum er um 1.150 milljónir króna, enda eru umsvifin mjög mikil í tengslum við þetta verkefni," sagði Þorgeir. Hann benti meðal annars á að samtals hefðu 70 starfsmenn Flugstoða farið til Pristina til að annast verkefnin.

Eðlileg afkoma

Eins og fram kom í frétt í Morgunblaðinu á mánudaginn var er talið að jákvæð afkoma af uppbyggingarverkefni flugmálastjórnar og Flugstoða nemi 100 milljónum króna á þessum tæpu þremur árum. Þorgeir sagði þetta eðlilegt í ljósi þess hversu mikil umsvifin væru og starfseminni fylgdi ýmis áhætta, auk ógjaldfærðs kostnaðar. "Við fengum enga fjármuni frá hinu opinbera í þetta verkefni og það hefur alltaf legið fyrir við mættum ekki verða fyrir fjárhagslegu tapi af þessari starfsemi."

Þorgeir sagði ekkert hæft í því að Flugstoðir hefðu dregið verkefnin á langinn í hagnaðarskyni. "Þetta er algerlega út í hött og við höfum þvert á móti beitt okkur fyrir því að heimamenn taki við sem flestum verkefnum á flugvellinum þannig að hann verði að fullu undir stjórn þeirra."

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert