Vildi gefa lögreglunni radarvarann

Lögreglan á Blönduósi hafa verið að prófa nýjan búnað við hraðamælingar í umdæminu að undanförnu með góðum árangri. Lögregla segir nýja búnaðinn gera það að verkum að þeir sem eru með radarvara í bílum sínum fá ekki aðvörun þegar þeir nálgast lögregluna.

Hún segir að ungur ökumaður hafi ekki verið sérlega hress þegar lögreglan mældi hann á um 120 km hraða, en hann var á glænýjum bíl með glænýjan radarvara, sem hann bauðst til að gefa lögreglunni þar sem hann væri nú orðið fremur tilgangslaust tæki í bílnum.

„Það sleppur enginn þó hann sé með radarvara,“ sagði lögreglumaður á vakt í samtali við mbl.is.

Pilturinn, sem er tvítugur, á von á að fá um 30.000 kr. sekt. Það má því með sanni segja að það borgi sig að halda sig á löglegum hraða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka