Vilja stöðva markaðssókn gagnvart börnum

Auglýsingar beinast einnig að börnum, þrátt fyrir að þau séu …
Auglýsingar beinast einnig að börnum, þrátt fyrir að þau séu ekki eiginlegir neytendur. Árni Sæberg

Markaðssetning sem beinist að börnum hefur farið vaxandi. Undanfarin tvö ár hafa umboðsmaður barna og talsmaður neytenda unnið að því að setja, í samráði við hagsmunaaðila, mörk við markaðssókn sem beinist að börnum. Til eru ýmis lagaákvæði en fylla má upp í með leiðbeinandi reglum, segir umboðsmaður barna, Ingibjörg Rafnar.

„Umræða um markaðssókn sem beinist að börnum hefur staðið lengi og þegar Ingibjörg Rafnar tók við embætti umboðsmanns barna ákváðum við að embættin skyldu vinna saman,“ sagði Gísli Tryggvason, talsmaður neytenda, á kynningafundi um málið í dag.

Stendur nú fyrir dyrum að leita samkomulags við aðila á markaði og samráðs við stjórnsýsluaðila og almannasamtök um hvar mörkin liggi gagnvart börnum sem neytendum. Á heimasíðu talsmanns neytenda er að finna kynningarefni um verkefnið. Þar er einnig hægt að senda inn fyrirspurnir og athugasemdir.

„Við beinum sjónum okkar að markaðssetningu sem beinist gagngert að börnum, að auglýsingum sem stríða ef til vill ekki gegn lögum en má setja athugasemdir við,“ segir Ingibjörg „við viljum koma á sátt við markaðinn og almenning um mörkin“ bætir hún við og segir slíkar aðgerðir feli frekar í sér að setja hlutlæg mörk eins og til dæmis að auglýsa ekki í kringum barnatíma. Það gefi betri raun heldur en að meta efni og gildi hverrar auglýsingar.

Sem dæmi um óviðeigandi auglýsingar sem birst hafa undanfarið segir Ingibjörg þær sýna of mjó ungmenni, áfengisnotkun ungs fólks, séu til þess gerðar að hræða eða höfði til áhrifagirni barna.

Aðspurð um hvort vefurinn sé einnig til athugunar segir Ingibjörg að lagareglur gildi um alla miðla auk þess sem að „við eigum að beita sömu mannasiðum á netheimum og mannheimum.“ En það sé í þessu tilviki sem og öðrum erfitt að henda reiður á því sem fer fram á vefnum.

Eftirlit með markaðssetningu sem beinist að börnum verður meðal annars á höndum fyrirtækjanna sjálfra, „við höfum fengið góð viðbrögð frá samtökum og fyrirtækjum, sem þykir betra að hafa samræmdar reglur svo þau þurfi ekki að óttast að næsti gangi lengra. Samkeppnin mun sjá um að fyrirtækin veiti hvoru öðru aðhald,“ segir Gísli, en segir annars konar eftirlit einnig skipta máli svo sem aðhald almennings og fyrirtækja auk tilmæla og fyrirmæla frá hinu opinbera.

Þegar fram sækir segjast Ingibjörg og Gísli tilbúin til þess að skoða fleiri hliðar málsins svo sem bann við sjónvarpsauglýsingum á óhollum matvörum fyrir ákveðinn tíma á kvöldin, líkt og gert var í Bretlandi, og athuga samráð við skólayfirvöld og nemendafélög framhaldsskóla um friðhelgi innan grunn- og framhaldsskóla.

Umboðsmaður barna

Talsmaður neytenda

Ingibjörg Rafnar, umboðsmaður barna.
Ingibjörg Rafnar, umboðsmaður barna. Ásdís Ásgeirsdóttir
Gísli Tryggvason, talsmaður neytenda.
Gísli Tryggvason, talsmaður neytenda. Sverrir Vilhelmsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert