vefsíðu Gluggans.">

Flóahreppur hafnar Urriðafossvirkjun

Sveitarstjórn Flóahrepps samþykkti á fundi sínum í gærkvöld að ekki verði gert ráð fyrir fyrirhugaðri Urriðafossvirkjun í drögum að aðalskipulagi fyrrum Villingaholtshrepps sem lögð verða fram til kynningar á íbúafundi í hreppnum mánudaginn 25. júní en í upphaflegri tillögu fyrrverandi hreppsnefndar Villingaholtshrepps var gert ráð fyrir virkjuninni. Frá þessu er greint á vefsíðu Gluggans.

Fram kemur að Aðalsteinn Sveinsson, oddviti Flóahrepps, hafi sagt í samtali við Gluggann, að sveitarstjórnin væri búin að liggja yfir þessu máli í vikur og mánuði og frá þeirra bæjardyrum séð væri spurningin frekar sú af hverju þeir ættu að hafa virkjunina inni á aðalskipulaginu. „Okkur finnast ekki nægileg rök til þess að gera ráð fyrir henni miðað við það sem fórnað er.”

Þorsteinn Hilmarsson, upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar, sagði í samtali við Gluggann að ákvörðun sveitarstjórnarinnar kæmi Landsvirkjun verulega á óvart. Viðræður hafi verið í gangi að undanförnu og ekkert hafi bent til þess að það yrði vendipunktur núna. „Það er ljóst að við munum óska nánari skýringa á að þeir ákveða að hafa þetta svona,” sagði Þorsteinn. Hann benti á að í samþykkt sveitarstjórnarinnar væri vísað til þess að ekki væri nægilegur ávinningur af virkjuninni fyrir sveitarfélagið en það væri þekkt víða á landinu og lúti að því að fasteignagjöld af stöðvarhúsum renna til þess sveitarfélags sem stöðvarhús standi í, en ekki er gert ráð fyrir stöðvarhúsi í Flóahreppi. „Það er bundið í landslögum og þeim ráðum við ekki.”

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert