Frítt í strætó fyrir Kópavogsbúa

mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Fulltrúar Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks í meirihluta bæjarstjórnar Kópavogs lögðu fram tillögu í bæjarráði Kópavogs í dag um að gjaldfrjálst verði í Strætó frá og með næstu áramótum. Tillagan var samþykkt og vísað til afgreiðslu bæjarstjórnar.

Tillagan og greinargerð með henni, var svohljóðandi:
„Bæjarstjórn Kópavogs samþykkir að frá og með næstu áramótum (2007/2008) verði gjaldfrjálst fyrir alla íbúa Kópavogs í Strætó.

Greinargerð:
Undanfarið hafa verið miklar umræður um Strætó bs. og sífellt minni notkun á þjónustu fyrirtækisins. Á sama tíma hefur fólki í Kópavogi og á höfuðborgarsvæðinu verið að fjölga hratt og aukinn umferðarþungi að verða sífellt stærra vandamál í samgöngum svæðisins. Ýmsir hafa bent á að efla megi almenningssamgöngur með því að veita gjaldfrjálsan aðgang að þjónustunni. Aukin notkun myndi síðan m.a. leiða af sér betri nýtingu umferðarmannvirkja og minni útblástur. Er í þessu sambandi meðal annars vísað til Akureyrar og Reykjanesbæjar, þar sem gjaldfrjálst er fyrir farþega í strætó.

Reykjavíkurborg hefur nú samþykkt gjaldfrjálsan aðgang unglinga og framhaldsskólanema í strætó og Hafnarfjörður hefur gert slíkt hið sama fyrir eldri borgara. Þá eru ekki margir aldurshópar eftir sem nota strætó, þ.e. aðallega börn og fólk af erlendri rót. Aðgangseyririnn þessara hópa sem eftir eru er um 300 milljónir króna, en kostnaðurinn við innheimtuna er á annað hundrað milljónir, þannig að það er ekki eftir miklu að slægjast.

Bæjarstjórn Kópavogs telur því mikilvægt að kanna hversu mikil áhrif verði af því að veita íbúum bæjarins gjaldfrjálsan aðgang að þjónustu Strætó og telur að verkefnið þurfi að vara í eitt ár a.m.k. Til Þess að ýta enn frekar undir notkun almenningssamgangna er jafnframt lagt til að skólaakstur í núverandi mynd verði afnuminn, en þess í stað verði strætisvagnakerfi bæjarins aðlagað þörf skólanna.

Tilraun þessi verður ekki gerð nema með auknu fjárframlagi til almenningssamgangna af hendi Kópavogsbæjar og má reikna með að verkefnið kosti um 90 milljónir króna, að frádreginni hagræðingu í skólaakstri, sem gæti numið 20 milljónum króna.”

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka