Gunnar í mál við Mannlíf og Ísafold

Gunnar I. Birgisson, bæjarstjóri Kópavogs.
Gunnar I. Birgisson, bæjarstjóri Kópavogs.

Gunnar I. Birgisson, bæjarstjóri Kópavogs, hyggst kæra nýlegar umfjallanir tímaritanna Mannlífs og Ísafoldar um hann og tengsl hann við staðinn Goldfinger og ýmis meint spillingarmál. Gunnar sagði í samtali við mbl.is að málið væri í vinnslu hjá lögmanni sínum.

„Mér finnst ekki hægt að menn fari svona út á ritvöllinn og reyni að hirða æruna af mönnum, án þess að menn geti borið hönd fyrir höfuð,“ sagði Gunnar og bætti því við að það væri alvarlegt að þetta væri gert í skjóli Baugs.

„Baugur gefur út þessi tímarit ásamt Reyni Traustasyni. Þeir eru búnir að kaupa upp gulu pressuna í landinu til að fá frið sjálfir, en síðan láta þeir eins og úlfhundar og ráðast á saklaust fólk. Spurningin er hver verður næstur,“ segir Gunnar.

Gunnar segir greinarnar ærumeiðandi fyrir sína persónu og byggir kæruna á því.

„Ég ætla ekki að láta þá komast upp með þetta,“ segir Gunnar og kveðst vera reiðubúinn að fara eins langt með þetta mál eins og til þarf.

Aðspurður segist hann þekkja Reyni Traustason lítið sem ekkert og að þeir hafi aðeins einu sinni rætt saman. „Ég hef ekkert lagt honum gott eða illt,“ segir Gunnar og telur greinilegt að einhver sé að greiða Reyni fyrir að hafa af sér æruna.

Gunnar sakar pólitíska andstæðinga um að leggjast svona lágt. Þeir grípi til þessara ráða þar sem þeir hafi ekkert pólitískt á sig. Hann segir að það sé lágkúrulegt að ráðist sé á persónu manna líkt og gert hefur verið.

Aðspurður um umfjallanir tímaritanna segir Gunnar að um gamlar kjaftasögur að ræða. Margt sé logið og í þær bætt.

„Ég er búinn að segja það margoft að ég hef farið inn á Goldfinger og er ekkert verið að skammast mín fyrir það. Þar er lögleg starfssemi og annað slíkt. Ég mun hinsvegar ekki fara þangað oftar það er alveg ljóst.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka