Íslendingar yrðu góðir samstarfsmenn í öryggisráði SÞ segir Burns

Frá öryggisráði Sameinuðu þjóðanna
Frá öryggisráði Sameinuðu þjóðanna AP

Nicholas Burns, aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna og náinn samstarfsmaður Condoleezzu Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segir að það sé stefna Bandaríkjastjórnar að gefa aldrei út yfirlýsingar um stuðning við ríki sem óska eftir sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. En eins og fram hefur komið þá sækjast Íslendingar eftir sæti í ráðinu. Burns segir að hins vegar líti Bandaríkjamenn á Íslendinga sem góða samstarfsmenn komi til þess að Íslendingar fái þar sæti. Þetta kom fram á blaðamannafundi Burns í dag.

Auk Burns þá voru Geir H. Haarde, forsætisráðherra, og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, á blaðamannafundinum sem haldinn var í ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu.

Burns bætti við hvað varðar öryggisráðið að ljóst sé að það er gott að hafa lönd innan vébanda öryggisráðsins sem styrkja starf þess.

Að sögn Ingibjargar Sólrúnar ræddu þau Burns meðal annars um samstarf Íslendinga og Bandaríkjamanna á sviði jarðvarma í tengslum við loftslagsbreytingar. Burns hét því að hann myndi við komuna til Washington beita sér fyrir því að koma á samskiptum milli viðeigandi aðila í löndunum tveimur.

Burns hefur undanfarin tvö ár sem aðstoðarutanríkisráðherra verið helsti fulltrúi bandaríska utanríkisráðuneytisins í málum eins og kjarnorkudeilunni við Íran, deilunni um framtíð Kosovo og í samstarfi Bandaríkjanna og Evrópu í stríðinu gegn hryðjuverkum.

Burns kom til landsins seint í gærkvöldi en hann hefur átt fundi með forsætisráðherra og utanríkisráðherra í morgun. Þar var meðal annars rætt um málefni Palestínu og Kosovo.

Nánar verður fjallað um blaðamannafund þremenninganna í myndskeiði hér á mbl.is síðar í dag.

Nicholas Burns
Nicholas Burns
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert