Aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna, Nicholas Burns sagði eftir fund með Geir H. Haarde forsætisráðherra og Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur utanríkisráðherra í morgun að hann sæi ekki nein vandamál framundan í samstarfi Íslands og Bandaríkjanna.
Burns sagði að þau hefðu rætt um utanríkismál, málefni Íraks, Írans og Afganistans sem og umhverfis- og orkumál og samstarf innan Sameinuðu Þjóðanna.
Burns tæpti á því að þó að nýr utanríkisráðherra Íslands drægi stuðning landsins við Íraksstríðið tilbaka þá værum við eigi að síður bandamenn í NATO og það sem skipti máli í dag væri að binda enda á ofbeldið í Írak og að þjóðir heimsins stæðu saman í að koma á lýðræði og friði í Írak.
Hernaðarlegt mikilvægi Íslands óbreytt
Burns sagðist ekki geta séð að hernaðarlegt mikilvægi Íslands hefði breyst þó að upp hefði komið deila milli Bandaríkjanna og Rússlands um staðsetningu bandarískra eldflauga í Austur-Evrópu. Hann sagðist gleðjast yfir því að Rússar hefðu stungið upp á sameiginlegum eldflaugavörnum í Aserbaídsjan og að það væri algerlega óþarft að fara í skotgrafir kalda stríðsins.
Fagnar framboði Íslands til Öryggisráðsins
Varðandi framboð Íslands til öryggisráðs Sameinuðu Þjóðanna sagði Burns að Bandaríkin gæfu aldrei upp hvaða lönd þau kjósa í öryggisráðið en tók jafnframt fram að Bandaríkin fagni því að Ísland skuli bjóða sig fram og að það sé jákvæð þróun að lýðræðisríki á borð við Ísland skuli vilja sitja í öryggisráðinu, því það geti ekki leitt til annars en að auka styrk Sameinuðu Þjóðanna.
Öll lönd heims þurfa að vinna að friði
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra hefur lýst yfir áhuga á að fara til Palestínu og bjóða fram aðstoð fyrir Íslands hönd til að leysa það mál.
„Við þurfum að fá öll lönd í heiminum til að vinna að friði í heiminum, það hefur ekki ríkt friður í Mið-Austurlöndum í 59 ár og því fögnum við því að íslenska ríkisstjórnin skuli vilja leggja hönd á plóginn,” sagði Nicholas Burns að lokum.