Öskjuhlíðagöng í stað mislægra gatnamóta?

Umferð á Kringlumýrarbraut í Reykjavík.
Umferð á Kringlumýrarbraut í Reykjavík. mbl.is/Ómar

Kynnt var í borgarráði í dag frumathugun á mislægum gatnamótum og stokkalausnum við Miklubraut og Kringlumýrarbraut. Borgarfulltrúi Samfylkingarinnar segir vekja athygli að formlegt samráð við íbúa hagsmunaaðila sé ekki hafið og að kostnaður sé margfalt hærri en upphaflega var gert ráð fyrir. Borgarfulltrúi meirihlutans segir samráð vera næsta skref og kostnaðinn hafa hækkað því forsendur hafi breyst.

Dagur B. Eggertsson, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, segir athygli vekja að formlegt samráð við íbúa og hagsmunaaðila sé ekki enn hafið. Þá segir hann heildarkostnað við mislæg gatnamót og stokkalausnir nú 12 milljarða, en það sé allt að fjórum sinnum hærri upphæð en ætluð var til mislægu gatnamótanna á samgönguáætlun sem samþykkt var á vorþingi.

Borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, Gísli Marteinn Baldursson, segir samráð við íbúa og hagsmunaaðila hluta af umhverfismati á framkvæmdinni, en það sé næsta skref. Auk þess hafi hann nú þegar kynnt tillögur meirihlutans fyrir Landssamtökum hjólreiðamanna, hverfissamtökum Hlíðasvæðis og atvinnurekendum í Kringlunni.

Gísli Marteinn segir framkvæmdina hafa breyst frá upphaflegum áætlunum. Horfið hafi verið frá mislægum gatnamótum og ákveðið að setja 70% umferðar við Miklubraut og 50% umferðar við Kringlumýrabraut í stokk, með hringtorgi ofanjarðar þar sem brautirnar mætast. Sú framkvæmd sé umhverfisvænni og með henni séu „lífsgæði íbúa metin umfram umferðaskipulag“, en hún hafi jafnframt í för með sér aukinn kostnað.

„Að mati Samfylkingarinnar á nú að kanna möguleika á því að leggja fyrirliggjandi fjármuni á samgönguáætlun í stokkalausnir á Miklubraut. Mislæg gatnamót geta beðið, en þess í stað á að ráðast í Öskjuhlíðargöng og dreifa þannig umferð frá nágrannasveitarfélögunum og álagi í gatnakerfinu betur,“ segir Dagur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka