Ríkisendurskoðun gerir athugasemdir við umfjöllun um háskólaskýrslu

Ríkisendurskoðun hefur sent frá sér tilkynningu vegna umfjöllunar um nýja skýrslu stofnunarinnar „Kostnaður, skilvirkni og gæði háskólakennslu“. Þar kemur fram að rangt sé að breytingar hafi verið gerðar til þess að hagræða upplýsingum. Jafnframt segir í tilkynningunni að það sé rangt að í skýrslunni sé ekki reiknað heildarmat á skilvirkni námsins.

Athugasemdir Ríkisendurskoðunar vegna umræðu um skýrsluna „Kostnaður, skilvirkni og gæði háskólakennslu“

„Vegna opinberrar umfjöllunar um skýrslu Ríkisendurskoðunar „Kostnaður, skilvirkni og gæði háskólakennslu“ vill stofnunin taka eftirfarandi fram.

Skýrsla stofnunarinnar fjallar eins og heiti hennar gefur til kynna um kostnað, skilvirkni og gæði háskólakennslu. Milli þessara þátta eru viss tengsl en því fer þó fjarri að stofnunin setji jafnaðarmerki milli þeirra eða geri einn rétthærri öðrum.

Skýrslan er sú fyrsta sinnar tegundar þar sem reynt er að meta íslenska háskóla út frá kostnaði, skilvirkni og gæði kennslunnar. Í þessari úttekt er að hluta til tekið mið af alþjóðlegum mælikvörðum við mat á háskólastarfi og raunar naut stofnunin við undirbúning úttektarinnar aðstoðar erlendrar rannsóknarstofnunar sem fæst við rannsóknir á háskólastiginu. Engu að síður má líta svo á að um þróunarvinnu sé að ræða. Stofnunin þurfti t.d. víða að laga mælikvarða að íslenskum veruleika og taka mið af athugasemdum skólanna og þeim upplýsingum sem voru í senn fáanlegar og samanburðarhæfar. Þetta skýrir m.a. það að ýmsar breytingar urðu frá drögum skýrslunnar til endanlegrar gerðar hennar, t.d. að fallið var frá því að gera samkeppnisfé til rannsókna að eiginlegum mælikvarða á akademíska stöðu háskóla. Það er því rangt að þær breytingar hafi verið gerðar til að hagræða niðurstöðum, enda eru upplýsingar um samkeppnisfé skólanna birtar í skýrslunni.

Í umræðu um skýrsluna hefur sömuleiðis verið fullyrt að brottfall nemenda frá námi sé ekki reiknað inn í heildarmat á skilvirkni námsins. Þetta er líka rangt. Í skýrslunni er skilvirkni ævinlega metin út frá fjölda brautskráðra nemenda en ekki út frá heildarfjölda innritaðra nemenda.

Í skýrslunni er hvergi gefið í skyn að það sé mælikvarði á gæði háskólakennslu að skólar séu ódýrir, eins og fullyrt hefur verið. Þar er þvert á móti bent á að hár kostnaður geti verið vísbending um hátt þjónustustig við nemendur. Það er hins vegar hlutverk Ríkisendurskoðunar að kanna hvernig því skattfé almennings sem ríkið veitir til einstakra stofnana og verkefna er notað og hvort það sé gert á hagkvæman, skilvirkan og árangursríkan hátt, hvort sem verkefnin eru unnin af ríkisstofnunum eða einkaaðilum. Af þeim sökum leitaðist stofnunin m.a. við að bera saman heildarkostnað einstakra skóla á hvern skráðan og brautskráðan nemanda.

Ríkisendurskoðun tekur undir það sjónarmið að akademísk staða háskóla, þ.e. menntun kennara og rannsóknarvirkni, og gæði kennslu séu tveir aðskildir þættir. Akademísk staða gefur þó til kynna hvort skólarnir hafi yfir að ráða velmenntuðu starfsfólki sem fylgist með nýjungum á fræðasviði sínu og reynir að stuðla að framþróun þess. Að því leyti er hún viss forsenda gæða. Um það hljóta jafnt forstöðumenn háskóla sem yfirvöld menntamála að vera sammála.

Ríkisendurskoðun leggur áherslu á að úttekt hennar er ekki endanlegur mælikvarði á ágæti íslenskra háskóla heldur einungis viðleitni til að opna umræðuna um það hvernig megi meta þá. Í skýrslunni eru enda víða settir fram fyrirvarar um túlkun einstakra atriða. Stofnunin ítrekar einnig það sjónarmið sem sett er fram í skýrslunni „að stjórnvöld eigi að vinna að því að þróa mælikvarða á kostnað, skilvirkni og gæði háskóla og láta gera úttektir með reglulegu millibili“.

Að lokum hvetur Ríkisendurskoðun jafnt skólafólk, stjórnmálamenn, fréttamenn og almenning til að kynna sér skýrslu stofnunarinnar og ræða um efni hennar á málefnalegan hátt," að því er segir í athugasemdum Ríkisendurskoðunar.

Skýrslan í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert