Fyrsta flug Icelandair frá Akureyri til Keflavíkur, með beinni tengingu við millilandaflug Icelandair var nú í morgun. Tekið var vel á móti áhöfninni við komuna til Keflavíkur og henni afhent blóm af fulltrúum IGS og Icelandair.
Fram kemur í tilkynningu að Icelandair bjóði nú í sumar, í samvinnu við Flugfélag Íslands, brottför og komu í millilandaflugi á Akureyri. Farþegar fljúga til og frá Akureyri með 37 sæta Dash-8 flugvél Flugfélags Íslands og tengjast beint við millilandaflug Icelandair í Leifsstöð á Keflavíkurflugvelli. Þessi þjónusta hefst 15. júní og stendur til loka ágúst.
Hægt er að bóka flugið á vef Icelandair og þar má nú sjá að boðið er upp á Akureyri sem valkost þegar flogið er til útlanda. Greitt er eitt fargjald fyrir flugið og um er að ræða beint flug snemma morguns frá Akureyri til Keflavíkur og flug síðdegis frá Keflavíkurflugvelli norður.
Farþegar munu innrita sig og farangur sinn á Akureyri og fara þar í gegnum tollskoðun og koma inn í Leifsstöð sem millilandafarþegar. Sama fyrirkomulag verður síðdegis þegar farþegar koma erlendis frá. Þá fara þeir beint um borð í vélina norður og fá síðan farangur sinn og tollskoðun á Akureyri.
Flogið verður á mánudögum, fimmtudögum og föstudögum og verður brottför frá Akureyri kl 05:50 og lent í Keflavík kl. 06:40. Síðdegis verður brottför frá Keflavík kl. 18:00 og koma til Akureyrar kl. 18:50.