Miðbæjarfélagið á Selfossi hefur skipað undirbúningshóp vegna opins fundar sem það hyggst gangast fyrir 18. júní kl 20 í Hótel Selfossi um skipulagsmál í miðbæ Selfoss og svonefndu Mjólkurbúshverfi.
Á fréttavefnum sudurland.is, kemur fram að þetta var ákveðið á fundi í Tryggvaskála í fyrrakvöld þar sem nýjustu tillögur meirihluta bæjarstjórnar varðandi skipulag miðbæjarins voru kynntar. Veruleg óánægja er með þær hugmyndir sem komnar eru fram um miðbæjarskipulagið og fara munu í afgreiðsluferli hjá umhverfisnefnd og skipulags- og bygginganefnd sveitarfélagsins. Megn óánægja er einnig með deiliskipulag lóða við Austurveg í Mjólkurbúshverfinu.
„Óánægjan beinist einkum að miklu byggingamagni í miðbænum og húsagerðinni sem tillagan gerir ráð fyrir en hún grundvallast á samningi sveitarfélagsins við Miðjuna ehf þar sem sveitarfélagið afsalar sér byggingarétti gegn óljósu samstarfi um gerð deiliskipulags. Samningur þessi var gerður skömmu fyrir síðustu bæjarstjórnarkosningar af núverandi fulltrúum meirihlutans sem þá áttu sæti í bæjarstjórn. Gagnrýnendur skipulagstillögunnar telja að í uppsiglingu séu stórfelld mistök í skipulagsmálum og sóun fjármuna," að því er segir á fréttavefnum sudurland.is.