Rútubílstjóri misreiknaði sig í beygju - hættan minni en talið var í fyrstu

Rúmlega 40 franskir ferðamenn voru í rútunni.
Rúmlega 40 franskir ferðamenn voru í rútunni.

Svo virðist sem að rúta með rúmlega 40 frönskum ferðamönnum hafi ekki verið í eins mikilli hættu og talið var í fyrstu, en á fjórða tímanum í dag barst tilkynning til lögreglunnar og neyðarlínunnar um að rútan stæði út af klettabrún á Öndverðarnesi og væri við að að falla fram af henni. Að sögn lögreglunnar á Snæfellsnesi fór eitt hjóla rútunnar út fyrir vegarkant þegar ökumaðurinn misreiknaði sig í beygju skammt frá Beruvík í dag.

Lögreglan segir annan rútubílstjóra hafa tilkynnt um óhappið. Tilkynningin varð þó til þess að Samhæfingarmiðstöðin í Skógarhlíð var ræst og voru þyrlur Landhelgisgæslunnar t.d. að fara leggja af stað þegar aðstoðin var afturkölluð. Þá voru allar björgunarsveitir á Snæfellsnesinu í ræstar út og ljóst að viðbúnaður var mikill.

Lögreglan segir ferðamennina hafa sýnt stillingu og afþakkað þá áfallahjálp sem þeim bauðst.

Það voru verktakar sem unnu við vegaframkvæmdir á skammt frá sem komu rútunni til aðstoðar og drógu hana aftur upp á veginn. Fallhæðin fram af brúninni var á milli einn til tveir metrar að sögn lögreglu.

Rútan skemmdist ekkert og þá sluppu allir farþegarnir ómeiddir. Rútan hélt því áfram ferð sinni en hún stefndi til Grundafjarðar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert