„Stórmerkilegt, enda var hann fullur af vatni"

Kristján Berg fyrir utan verslun sína þar sem heita pottinum …
Kristján Berg fyrir utan verslun sína þar sem heita pottinum var stolið
Eftir Andra Karl

andri@mbl.is

Kristjáni Berg, sem eitt sinn gekk undir nafninu fiskikóngurinn, brá heldur betur í brún þegar hann kom að verslun sinni í Hillerød, sem er 30 km norður af Kaupmannahöfn, í gærmorgun. Búið var að stela heitum potti sem var til sýnis fyrir utan verslunina og ljóst að þar hafa einhverjir verið á ferð sem kunna til verka.

Potturinn er metinn á um 1,5 milljónir íslenskra króna og var hlaðinn aukabúnaði, s.s. hljómflutningsgræjum.

„Þetta var einfaldlega Rolls Royce heitu pottanna; flottasti potturinn á markaðnum," segir Kristján sem er að vonum vonsvikinn með þjófnaðinn en potturinn var ekki tryggður. "Verslunin er í fyrirtækjagötu og hér eru bílasölur allt um kring, með nýja og notaða bíla. Þrátt fyrir það vilja þeir heita pottinn. Ég hefði nú talið að menn væru fljótari að stela bílum en heitum potti og ættu væntanlega að fá meira fyrir þá einnig – enda bílar dýrir í Danmörku."

Hefur verið um tvö tonn

Að sögn Kristjáns er heiti potturinn af stærstu gerð, 2,35 m á breidd. "Hann passar ekki inn í einn einasta sendibíl. Potturinn rétt passar inn í stóran flutningabíl. Þetta er í raun stórmerkilegt, enda var hann fullur af vatni og þessir aðilar hafa líklega þurft að tæma hann áður," segir Kristján sem telur pottinn hafa verið um tvö tonn á þyngd. Hann var ekki skrúfaður niður og Kristján reiknar með að þjófarnir hafi notað krana.

Sjá nánar í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert