Veruleg fjölgun ferðamanna fyrstu 5 mánuði ársins

Erlendum ferðamönnum sem fóru um Leifsstöð fjölgaði um tæp 17% fyrstu fimm mánuði ársins, miðað við sama tímabil í fyrra, samkvæmt talningu Ferðamálastofu. Þeir voru rúmlega 122 þúsund í ár en rúmlega 104 þúsund í fyrra.

Sé litið á tölur síðustu tveggja mánaða  þá fjölgaði ferðamönnum um rúm 9% í apríl og rúm 10% í maí. Í apríl, líkt og fyrri mánuði ársins, var fjölgunin mest meðal Breta. Í maí eru hins vegar íbúar á meginlandi Evrópu (Þýskalandi, Frakklandi Hollandi og Spáni) að koma sterkt inn, ásamt Norðmönnum. Nefna má að í maí í ár voru erlendir ferðamenn sem fóru um Leifsstöð 34.256 talsins, sem er álíka fjöldi og í júní fyrir fjórum árum síðan, að því er segir í tilkynningu frá Ferðamálaráði.

Yfir 40% aukning á fjórum árum

Frá áramótum hefur verið góður vöxtur frá flestum mörkuðum að N.-Ameríku undanskyldri. Þar var búist við fækkun vegna breyttar vetraráætlunar í flugi. Sé litið fjögur ár aftur í tímann, til ársins 2003, þá kemur í ljós að erlendum ferðamönnum á þessu tímabili hefur fjölgað um rúmlega 43%. Árið 2003 fóru 85 þúsund erlendir ferðamenn um Leifsstöð en voru rúmlega 122 í ár, sem fyrr segir.

Að sögn Ársæls Harðarsonar forstöðumanns markaðssviðs Ferðamálsstofu í fréttatilkynningu, er afar ánægjulegt að sjá slíka aukningu yfir veturinn. „Aukin áhersla hefur verið lögð á markaðssetningu á vetrarferðir undanfarið og verður svo áfram. Það munar auðvitað mest um aukningu á framboði flugsæta til landsins sem hefur aukist jafnt og þétt undanfarin ár. Því hefur fylgt mikil fjárfesting í gistirými og afþreyingu," segir Ársæll.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert