„Þetta er ekki spurning um annaðhvort eða,“ segir Gísli Marteinn Baldursson, formaður umhverfisráðs í Reykjavík. Þannig svarar hann Degi B. Eggertssyni, borgarfulltrúa Samfylkingar, sem segir að heldur eigi að ráðast í Öskjuhlíðargöng en mislæg gatnamót Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar.
„Bæði Öskjuhlíðargöng og mislæg gatnamót á Miklubraut og Kringlumýrarbraut eru á skipulagi og talið að ráðast þurfi í báðar framkvæmdirnar,“ segir Gísli Marteinn. „Það hefur alltaf verið sagt að Öskjuhlíðargöng séu ekki arðbær fyrr en Vatnsmýrin byggist upp og ég hef ekki séð nein ný rök sem hrekja það. Allir sjá hinsvegar ástandið á gatnamótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar og þess vegna ráðumst við í þessar framkvæmdir.“
Sjá nánar í sunnudagsblaði Morgunblaðsins.