Gagnrýna að ekki sé meira samráð milli sveitarfélaga um gjaldtöku í strætó

Þorvaldur Örn Kristmundsson
Eftir Gunnar Pál Baldvinsson

gunnarpall@mbl.is

Ýmsir bæjarstjórar á höfuðborgarsvæðinu eru síður en svo ánægðir með hvernig starfsbræður þeirra í nágrannasveitarfélögunum hafa staðið að því að bjóða stórum hópum íbúa að ferðast gjaldfrjálst með strætisvögnum.

Bæjarráð Kópavogs samþykkti í fyrradag að frá og með næstu áramótum yrði gjaldfrjálst fyrir alla íbúa Kópavogs í Strætó. Gunnar I. Birgisson segir breytinguna til komna vegna ákvörðunar Reykjavíkurborgar og Hafnarfjarðarbæjar um að veita ákveðnum hópum notenda fríar ferðir með strætisvögnum. Frá og með haustinu munu framhalds- og háskólanemar búsettir í Reykjavík geta ferðast með strætó án þess að þurfa að greiða fargjald og Hafnfirðingar eldri en 67 ára hafa frá og með síðastliðnum áramótum fengið farmiða gegn framvísun svokallaðs vildarkorts. Bæði þessi sveitarfélög ákváðu einhliða að veita sínum íbúum þessa þjónustu og gagnrýndi Gunnar það á sínum tíma. "Mér þótti sú aðferð ekki góð en við notum hana núna og þá er bara jafnt með liðunum," segir Gunnar.

Hefðu viljað meira samráð

Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri Hafnarfjarðarbæjar, segir ákvörðun bæjarráðs Kópavogs koma sér á óvart. Hann segir að ekki hafi staðið á Hafnarfjarðabæ hvað það varðar að fella niður gjaldskylduna. "Í mínum huga snýst þetta um að sveitarfélögin séu samtaka í sínum áherslum," segir Lúðvík og bendir á að sér finnist sérkennilegt að þessi mál séu ekki rædd á sameiginlegum vettvangi Sambands sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) þar sem nú standi einmitt til að ræða málefni Strætó bs.

Ekki sannfærð um ágæti þess að gjaldfrjálst sé í strætó

Hvorki Gunnar né Ragnheiður Ríkharðsdóttir, bæjarstjóri Mosfellsbæjar, er viss um ágæti þess að gjaldfrjálst sé í strætó. Bæði benda þau á að skynsamlegra sé að ferðir séu tíðar og komi mönnum á áfangastað. Á endanum séu það alltaf bæjarbúar sem þurfi að greiða fyrir þjónustuna. Ragnheiður telur jafnframt að þessi mál hefði átt að ræða á vettvangi SSH. "Auðvitað er það á forræði einstakra sveitarfélaga að auka þjónustu en ég tel afar óheppilegt að einstök sveitarfélög séu með yfirlýsingar sem þessar vegna þess að þetta mun hafa ákveðin ruðningsáhrif til okkar í hinum sveitarfélögunum."

Sjá nánar í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert