Talsvert hefur verið um hraðakstur í grennd við Borgarnes í dag. 16 hafa verið stoppaði frá því í gærkvöldi, þar af einn sem mældist á 139 km. hraða og einn undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Lögreglan í Borgarnesi vill minna fólk á hækkanir á sektum fyrir of hraðan akstur og nýja tækni í hraðamælingum.
Ungur maður, grunaður um að vera undir áhrifum ávana- og fíkniefna, var færður á lögreglustöðina í Borgarnesi snemma í morgun og tekin blóðprufa. Maðurinn fékk bílinn ekki afhendan strax og mátti bíða fram yfir hádegi í dag áður en hann gat haldið áfram leið sinni til Akureyrar, að sögn lögreglunnar í Borgarnesi.
Þá stöðvaði lögreglan í Borgarnesi bíl á 139 km hraða og vill að því tilefni minna ökumenn á hækkanir á sektum fyrir of hraðan akstur frá því 1. júní síðastliðinn. Ökumaðurinn sem stöðvaður var sektaður um 90.000 krónur, sem er um 30.000 króna hækkun frá því um áramót.
Auk þess minnir lögreglan ökumenn á að með nýrri tækni í hraðamælingum er hægt að miða út hraða bíls, jafnvel þótt hann sé inni í bílalest. Þannig er hægt að mæla út hraða hvers og eins bíls.