Ökumaður stöðvaður undir áhrifum kókaíns

mbl.is/Kristinn

Ökumaður var stöðvaður í Blönduhlíðinni í Skagafirði kl. 19:35 í kvöld af lögreglunni á Blönduósi og reyndist hann vera undir áhrifum kókaíns við aksturinn. Ökumaður var fluttur á lögreglustöðina á Sauðárkróki til blóð- og þvagsýnatöku og einnig skýrslutöku.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Blönduósi kom eigandi bifreiðarinnar á bifhjóli frá Akureyri til þess að ná í bifreiðina sína en við athugun á honum reyndist hann hafa neytt hass nýlega og var hann þá handtekinn í leiðinni og tekið úr honum blóð- og þvagsýni.

Við leit í bifreiðinni fannst ætlað hass og amfetamín. Ökumaður og eigandi bifreiðar voru laus úr höndum lögreglu að lokinni að skýrslutöku en urðu að skilja eftir ökutæki sín við lögreglustöðina á Sauðárkróki.

Lögreglumenn frá Sauðárkróki og frá Blönduósi unnu saman að þessu málum og nutu aðstoðar fíkniefnaleitarhundsins Freyju frá Blönduósi sem kom að góðum notum við leitina og fann efnin eftir stutta leit, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert