VG ályktar um virkjanir í Neðri–Þjórsá

VG ályktuðu um Neðri-Þjórsá í dag.
VG ályktuðu um Neðri-Þjórsá í dag. mbl.is/RAX

Vinstrihreyfingin – grænt framboð sendi í dag frá sér ályktun þar sem upphaflegri ákvörðun sveitarstjórnar Flóahrepps um að gera ekki ráð fyrir fyrirhugaðri Urriðafossvirkjun í drögum að nýju aðalskipulagi sveitarfélagsins er fagnað en í ályktuninni er jafnframt tekið fram að harmað er að sveitarstjórnin hafi ákveðið að leggja fram tvær skipulagstillögur eftir fund með forsvarsmönnum Landsvirkjunar.

Ályktunin í heild sinni:
Ályktun um virkjanir í Neðri–Þjórsá Vinstrihreyfingin – grænt framboð fagnar upphaflegri ákvörðun sveitarstjórnar Flóahrepps um að gera ekki ráð fyrir fyrirhugaðri Urriðafossvirkjun í drögum að nýju aðalskipulagi sveitarfélagsins og harmar um leið að sveitarstjórnin hafi ákveðið að leggja fram tvær skipulagstillögur eftir fund með forsvarsmönnum Landsvirkjunar. Ekki er hægt að draga aðra ályktun en þá að sveitarstjórn Flóahrepps hafi verið beitt miklum þrýstingi í ljósi fyrri orða oddvita Flóahrepps um virkjunina þess efnis að „ekki séu nægileg rök til þess að gera ráð fyrir henni miðað við það sem fórnað er.“ Vinstrihreyfingin – grænt framboð gerir alvarlegar athugasemdir við að yfirstjórn Landsvirkjunar skuli beita lýðræðislega kjörna fulltrúa þrýstingi til að ná markmiðum fyrirtækisins.

Um 90 athugasemdir, frá 250 einstaklingum, bárust vegna tillögu að breytingu á aðalskipulagi Skeiða- og Gnúpverjahrepps 2004, þar sem gert er ráð fyrir tveimur virkjunum, Holta- og Hvammsvirkjun og því ljóst að veruleg andstaða er við áformin hjá íbúum og félagasamtökum.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð tekur einnig heilshugar undir ályktun meirihluta bæjarráðs Árborgar þar sem samþykkt stjórnar Sunnlenskra sveitarfélaga frá 20. apríl sl. um orkuframleiðslu og orkunýtingu á Suðurlandi er mótmælt harðlega. SASS er samstarfsvettvangur sveitarfélaga á Suðurlandi og sameiningartákn og því ekki vettvangur til að framfylgja stefnu ákveðinna stjórnmálaflokka um uppbyggingu orkufreks iðnaðar á Suðurlandi.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð hvetur ríkisstjórnina til að taka engar bindandi ákvarðanir um stóriðju fyrr en heildstæð náttúruverndaráætlun hefur verið lögð fyrir Alþingi og samþykkt á þeim vettvangi. Ákvarðanir nýrrar ríkisstjórnar í upphafi kjörtímabilsins geta ráðið úrslitum um framtíð náttúru Íslands. Ríkisstjórnin hefur nú tækifæri til að sýna fram á stefnubreytingu í þágu náttúru og umhverfis en ljóst er að orkufyrirtæki standa í röðum til þess að fá að nýta náttúruauðlindir í öllum landshlutum, ekki síst í þágu orkufrekrar og mengandi stóriðju.

Það er grundvallaratriði að heildstæð náttúruverndaráætlun verði gerð og samþykkt áður en frekari ákvarðanir verða teknar um orkufrekan iðnað. Annars er hætta á stórslysi í náttúruverndarmálum. Þá er grundvallaratriði að orkufyrirtækin beiti ekki lýðræðislega kjörna fulltrúa og allan almenning óeðlilegum þrýstingi í sókn sinni í náttúruauðlindir þjóðarinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert