Aukin krafa um sjálfbærni í sjávarútvegi

Krafa um sjálfbærni í sjávarútvegi eykst sífellt og því mikilvægt að íslensk fyrirtæki taki virkan þátt í þróun á því sviði. Þetta kom fram á alþjóðlegum vinnufundi Matís, sem fram fór á Sauðárkróki. Þar kom fram að fjölmörg sóknarfæri eru til staðar í sjálfbærri þróun í sjávarútvegi en nauðsynlegt er að Íslendingar haldi vöku sinni svo þeir eigi þess kost að vera framarlega í umræðu um slík mál í alþjóðlegu tilliti.

„Sjálfbær þróun (e. sustainable development) er sú þróun sem gerir fólki kleift að mæta þörfum sínum án þess að draga úr möguleikum komandi kynslóða til hins sama. Á alþjóðlegum vinnufundi Matís (Matvælarannsóknir Íslands) og færeyskra og íslenskra fulltrúa sem tengjast sjávarútvegi kom fram breið samstaða um mikilvægi þess að halda sjálfbærni á lofti með tilliti til veiða, vinnslu og flutninga á erlenda markaði.

Vinnufundurinn er hluti af vestnorrænu verkefni, sem Matís stýrir, og nefnist „Sustainable Food Information”. Verkefnið hefur það að markmiði að auðvelda fyrirtækjum í matvælaiðnaði, svo sem sjávarútvegsfyrirtækjum, að sýna fram á sjálfbærni. Sérstaklega er horft til rekjanleika sjávarafurða, frá miðum til neytanda, sem er undirstaða þess að hægt sé að sýna fram á sjálfbærar veiðar," að því er segir í tilkynningu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert