Ekki er vitað til þess að neinn Íslendingur tengist stórum barnaklámshring sem upprættur hefur verið í 33 löndum víðsvegar um heiminn. Ekki hefur verið leitað til kynferðisbrotadeildar lögreglunnar vegna málsins, sem er með þeim umfangsmestu sem komið hafa upp. Borin hafa verið kennsl á rúmlega 700 meðlimi hringsins og hefur rúmlega þrjátíu börnum verið bjargað að því er fram kemur á fréttavef BBC.
27 ára gamall Breti að nafni Timothy Cox stjórnaði hringnum, en öll samskipti fóru fram á spjallsíðunni „Kids The Light Of Our Lives”, eða „Börn, ljós lífs okkar”. Á spjallsíðunni skiptust meðlimir á myndum og myndskeiðum. Cox var handtekinn á síðasta ári og fundust þá rúmlega 75.000 myndir á tölvu hans og sönnunargögn um að hann hefði sent 11.000 myndir til annarra notenda. Cox hefur játað brot sín og bíður dóms.