Pókermót stöðvað

Lögreglan í Reykjavík stöðvaði fyrsta opinbera pókermót sem haldið hefur verið hérlendis sl. laugardag. Hún lagði jafnframt hald á alla þá muni sem tengdust mótinu, s.s. spilapeninga, spilaborð og spil.

Alls mættu rúmlega 150 þátttakendur til leiks og greiddi hver og einn 4.000 kr. mótsgjald sem óskipt rann saman í verðlaunafé sem samtals nam því um 600.000 kr.

Mótið hófst kl. 14 á laugardag og kom lögreglan á staðinn í vettvangsferð um kl. 15. Það var síðan kl. 19.30 sem lögreglan mætti aftur á vettvang ásamt lögfræðingi sínum og stöðvaði mótið og rýmdi húsið. Eftir því sem Morgunblaðið kemst næst voru þá innan við þrjátíu leikmenn eftir, enda langt liðið á mótið. Í samtali við Morgunblaðið sagðist Sindri Lúðvíksson, umsjónarmaður mótsins, hissa á því að mótið hefði verið stöðvað enda gæti hann ekki séð að mótið hefði verið ólöglegt. Vísar hann þar til þess að ekkert þóknunargjald hafi verið tekið af þeirri upphæð sem spilað var fyrir eða svokallað "rake" eins og þekkist í spilavítum erlendis. Segist hann ósáttur við að gert sé upp á milli spila á Íslandi, þ.e. að bannað sé að spila upp á peninga í póker en slíkt megi bæði í bingói og bridsi.

Hjá lögreglunni fengust þær upplýsingar að málið væri nú til skoðunar hjá rannsóknardeild lögreglunnar sem fjármálabrot.

Í hnotskurn
» Í 183. grein almennra hegningarlaga nr. 19/1940 segir: "Sá, sem gerir sér fjárhættuspil eða veðmál að atvinnu [...] skal sæta sektum eða fangelsi allt að 1 ári."
» Í 184. gr. sömu laga er einnig að finna eftirfarandi: "Hver, sem aflar sér tekna beint eða óbeint með því að láta fjárhættuspil eða veðmál fara fram í húsnæði, er hann hefur umráð yfir, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 1 ári."
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert