Héraðsdómur Norðurlands eystra hefur fundið 16 ára pilt sekan um kynferðisbrot gegn frænda sínum sem var 3 ára gamall þegar brotið var framið á síðasta ári. Refsingu piltsins var frestað skilorðsbundið í fimm ár. Pilturinn var sýknaður af ákæru fyrir svipuð brot gegn tveimur öðrum frændum sínum, sem þá voru 2-3 ára en pilturinn var ekki orðinn 15 ára þegar þau brot voru framin og því ekki sakhæfur.
Pilturinn var dæmdur til að sæta sérstakri umsjón í eitt ár. Fram kemur í dómnum, að pilturinn hafi leitað sér aðstoðar og ekki sé ástæða til að ætla annað en hann muni halda því áfram meðan þörf sé talin vera á henni. Vísað er til umsagnar sálfræðings þar sem kemur fram að pilturinn iðrist brota sinna og sé áhugasamur og viljugur til að taka á sínum málum.
Pilturinn var dæmdur til að greiða tveimur af drengjunum 600 þúsund krónur í bætur hvorum en dómurinn segir, að þótt pilturinn hafi verið sýknaður af broti gegn öðrum piltinum séu skilyrði bótaskyldu fyrir hendi. Segir í dómnum, að ljóst sé að verknaður piltsins hafi verið til þess fallinn að valda drengjunum sálrænum erfiðleikum en við ákvörðun um fjárhæð bóta verði hins vegar að líta til þess að alls óvíst sé að verknaðurinn muni hafa varanleg áhrif á drengina.