Egill og 365 ná samkomulagi

Egill Helgason.
Egill Helgason. mbl.is

Sá ágreiningur sem hefur verið á milli 365 og Egils Helgasonar vegna fyrirhugaðra starfa Egils hjá RÚV, hefur verið leystur með samkomulagi aðila. Egill hefur fallist á, eftir að hafa farið yfir málið með lögmanni sínum að ákveðnar líkur séu á að samningur teljist hafa komist á í skilningi laga vegna þeirra samskipta sem aðilar áttu sín á milli, að því er segir í sameiginlegri fréttatilkynningu frá 365 og Agli Helgasyni.

Egill laus undan samningsskuldbindingum

Í tilkynningu segir jafnframt að eftir stóð hins vegar ágreiningur um hvort sá samningur hafi verið uppsegjanlegur. Aðilar hafa nú leyst þann ágreining með samkomulagi sem felur í sér að Egill er laus undan samningsskuldbindingum sínum við 365," samkvæmt fréttatilkynningu.

Í fréttatilkynningunni er haft eftir Agli: „Ég er sáttur við þau málalok sem hafa orðið í þessari deilu. Ég hlakka til að takast á við þau verkefni sem bíða mín hjá RÚV frá og með næsta hausti. Að endingu vil ég þakka fyrir farsælt samstarf við Stöð 2 á liðnum árum og óska 365 farsældar."

Í fréttatilkynningunni er haft eftir Ara Edwald, forstjóra 365: „Með þeirri sátt sem hefur verið gerð við Egil Helgason er til lykta leidd sú deila sem hefur staðið frá 1. júní sl. um starfslok Egils Helgasonar. 365 er sátt við þann endi sem deila þessi fékk. Agli eru þökkuð störf sín í þágu Stöðvar 2 á liðnum árum og þess óskað að honum farnist vel í framtíðinni."

Að lokum segir í tilkynningunni að öðru leyti munu aðilar ekki tjá sig frekar um þann ágreining sem nú hefur verið til lykta leiddur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert