Fjöldi veittra atvinnuleyfa til erlends verkafólks jókst verulega í maí sl. eða um 54% milli ára samkvæmt tölum frá Vinnumálastofnun, sem fjallað er um í ½5 fréttum Kaupþings. Segir Greiningardeild Kaupþings þetta benda til þess, að aukinni eftirspurn eftir vinnuafli sé svarað með aðflutningi vinnuafls frá öðrum löndum.
Segir í ½5 fréttum, að líklegt megi telja að ekkert lát verði á aðflutningi vinnuafls meðan atvinnuleysi sé í sögulegri lægð eða um 1,1% um þessar mundir. Þessar tölur séu enn ein vísbendingin um að mikil umframeftirspurn sé hér á landi sem sjáist m.a. á aukinni veltu á fasteignamarkaði.
Pólverjar bera höfuð og herðar yfir aðrar þjóðir hvort sem litið er til veitingar ríkisfanga eða fjölda erlendra ríkisborgara hér á landi. Mikill kippur kom í aðflutning Pólverja hingað til lands árið 2004. Á sama ári gengu Pólverjar í ESB og fengu aðgang að vinnumörkuðum Evrópska efnahagssvæðisins. Pólverjar eru nú um 2% landsmanna og þá eru ótaldir þeir Pólverjar sem hlotið hafa íslenskt ríkisfang.
Vöxtur hefur orðið í öllum hópum aðfluttra erlendra ríkisborgara síðan árið 2000 að Norðurlandabúum undanskildum, en hlutfall þeirra hér á landi hefur verið tiltölulega stöðugt undanfarin 17 ár.