Málum bæinn bleikan

Í fyrra fengu fjölmiðlarnir bleika steina. Hér sést Björn Vignir …
Í fyrra fengu fjölmiðlarnir bleika steina. Hér sést Björn Vignir Sigurpálsson, fréttaritstjóri Morgunblaðsins taka við steini, mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Hinn 19. júní árið 1915 fengu konur kosningarétt. Til að minnast þess áfanga hafa nokkrir hópar skipulagt atburði í dag undir heitinu Málum bæinn bleikan. Að þessari dagskrá standa: Bríet, Kvenréttindafélag Íslands, Stígamót, Femínistafélag Íslands, Kvennaráðgjöfin, Kvenfélagasamband Íslands, Samtök um Kvennaathvarf, Kvennasögusafn, Stúdentaráð Háskóla Íslands, Kvennakirkjan, Rannsóknastofa í kvenna- og kynjafræði (RIKK) og UNIFEM

Í fréttatilkynningu eru allir sem vilja sýna stuðning við jafnrétti í verki hvattir til að bera eitthvað bleikt þennan dag.

Bleiku steinarnir, hvatningarverðlauna Femínistafélagsins, verða afhentir fyrir hádegi á Austurvelli og Ísafirði. Frá klukkan 13 verður opið hús á Jafnréttisstofu, Borgum á Akureyri. Klukkan 16.15 hefst kvennasöguganga undir leiðsögn Kristínar Ástgeirsdóttur, sagnfræðings. Gangan hefst við Kvennaskólann í Reykjavík, gengið verður um Þingholtin og Kvosina og endað á Hallveigarstöðum.

Klukkan 17.15 hefst hátíðardagskrá í samkomusal Hallveigarstaða í boði Kvenréttindafélags Íslands, Kvenfélagasambandsins og Bandalags kvenna í Reykjavík. Ávörp flytja Þorbjörg Inga Jónsdóttir, formaður KRFÍ, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra og Steingerður Steinarsdóttir, ritstjóri 19. júní. Að dagskránni lokinni verða veitingar og kaffispjall á Hallveigarstöðum. Samkoma Ungliðahóps Femínistafélagsins hefst klukkan 22 á Cultura, Hverfisgötu. Kvenréttindafélag Íslands dreifir í dag tímaritinu 19. júní frítt og UNIFEM selur bleik armbönd til styrktar kvennamiðstöðvum í Afganistan.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka