„Nýr áfangi er að hefjast í norrænu samstarfi og það er mér mikið ánægjuefni." Þetta sagði Halldór Ásgrímsson framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar eftir að norrænu forsætisráðherrarnir urðu sammála um endurnýjaðar norrænar áherslur á sviði hnattvæðingarinnar. Hnattvæðingin hefur í för með sér nýjar áskoranir, en einnig fjölda tækifæra fyrir Norðurlöndin, að því er segir í tilkynningu.
„Þetta eru tímamót og árangur af vönduðu norrænu samstarfi, segir Halldór, sem tók þátt í sumarfundi forsætisráðherrana sem haldin var í Punkaharju í Finnlandi í dag, þriðjudag.
Loftslagsmál, umhverfismál, orkumál, rannsóknir, menntun og nýsköpun, landamærahindranir og aukin kynning á Norðurlöndunum eru svið sem norrænu ríkisstjórnirnar vilja leggja áherslu á í framtíðinni til að geta tekist á við áskornir hnattvæðingarinnar. Norðurlöndin vilja til að mynda vera í fararbroddi hvað varðar minnkun losunar gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið.
„Metnaðarfullar og raunhæfar áherslur eru nauðsynlegar, ef við ætlum að kynna Norðurlöndin sem öflugt svæði. Hvert Norðurlanda fyrir sig getur kynnt sig sérstaklega, en á sumum sviðum skiptir það meginmáli að vinna saman að sameiginlegum markmiðum sem miða að norrænu notagildi," segir Halldór jafnframt, en hann er fulltrúi ríkisstjórnanna í norrænu samstarfi.
Í tilkynningu kemur fram að forsætisráðherrarnir urðu einnig sammála um að halda skyldi leiðtogafund árlega til að ítreka mikilvægi hnattvæðingarsamstarfsins og til að efla umræðuna um hana meðal hagsmunaaðila ríkjanna.
Halldór Ásgrímsson og Dagfinn Höybråten forseti Norðurlandaráðs funduðu með forsætisráðherrunum bæði mánudag og þriðjudag.