Borgarstjórnarflokkur Samfylkingarinnar hefur skipað talsmenn í einstökum málaflokkum. Segir flokkurinn að þetta séu nýmæli, sem eigi að stuðla að markvissum málflutningi Samfylkingarinnar í öllum málaflokkum og að ábyrgð, forysta og verkaskipting innan borgarstjórnarflokksins í stefnumótun og upplýsingamiðlun sé skýr.
Talsmenn Samfylkingarinnar verða sem hér segir:
Dagur B. Eggertsson er oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík og verður talsmaður flokksins um stjórn borgarinnar, fjármál og önnur málefni sem heyra undir borgarráð. Dagur er jafnframt talsmaður í skipulags- og samgöngumál, orkumálum og málefnum Árbæjarhverfis.
Björk Vilhelmsdóttir verður talsmaður í velferðarmálum, málefnum Faxaflóahafna og Laugardalshverfis. Oddný Sturludóttir verður talsmaður menntamálum og menningarmálum og málefnum miðborgarinnar. Sigrún Elsa Smáradóttir verður talsmaður í leikskólamálum, framkvæmdamálum og málefnum Háaleitishverfis.
Dofri Hermannsson verður talsmaður í umhverfismálum og málefnum Grafarvogshverfis. Stefán Jóhann Stefánsson verður talsmaður í íþrótta- og tómstundamálum, innkaupamálum og málefnum Breiðholtshverfis.Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir verður talsmaður í mannréttindamálum.
Stefán Benediktsson verður talsmaður í málefnum Hlíðahverfis. Felix Bergsson verður talsmaður í málefnum Vesturbæjarhverfis og Gunnar H. Gunnarsson verður talsmaður í málefnum Kjalarness.
Í tilkynningu frá Samfylkingunni segir, að hlutverk talsmanna Samfylkingarinnar verði auk málsvarshlutverksins að leiða stefnumótun, kynningarstarf og uppbyggingu tengslanets flokksins á viðkomandi sviðum. Hið nýja skipulag eigi þannig að auðvelda almenningi og flokksfólki að koma ábendingum sínum á framfæri og taka þátt í stefnumótun í borgarmálum auk þess að auka samskipti og gagnkvæmt traust milli kjörinna fulltrúa Samfylkingarinnar og almennings, hagsmunaaðila, félagasamtaka og almenns flokksfólks.