Samþykkt að undirbúa stofnun jafnréttisskóla

Borgarstjórn Reykjavíkur samþykkti samhljóða á fundi í dag tillögu frá borgarfulltrúum Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs um að setja á stofn samráðshóp sem hafi það verkefni að kanna kosti þess að stofna jafnréttisskóla. Skólinn hafi það markmið að efla þekkingu og vitund barna og ungmenna á jafnréttismálum í samstarfi við þau félagasamtök og stofnanir sem starfa að jafnréttismálum.

Samkvæmt tillögunni á samráðshópurinn að skila niðurstöðum ekki síðar en 1. janúar á næsta ári enda skuli stefnt að því að jafnréttisskólinn hefji störf á haustmánuðum 2008.

Í greinargerð með tillögunni segir að fyrirmynd jafnréttisskólans sé Náttúruskóli Reykjavíkur, sem lauk sínu fyrsta starfsári nú um síðustu áramót. Sá skóli hafi sannarlega sannað gildi sitt. Gert er ráð fyrir að jafnréttisskólinn verði starfræktur og rekinn á svipuðum forsendum og náttúruskólinn í samvinnu kennaramenntunar, rannsókna í kennslufræðum, í faglegri samvinnu við menntamálaráðuneytið og Rannsóknarstofu í kvenna- og kynjafræðum. Líkt og hjá Náttúruskólanum væri starfsmaðurinn einn fyrst um sinn og sinnti verkefninu eftir eftirspurn skólanna og frístundaheimilanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert