Siðanefnd Blaðamannafélags Íslands hefur komist að þeirri niðurstöðu, að Ríkisútvarpið Sjónvarp og Helgi Seljan, sjónvarpsmaður, hafi brotið með alvarlegum hætti gegn siðareglum félagsins í umfjöllun um íslenskan ríkisborgararétt, sem sambýliskona sonar Jónínu Bjartmarz, þáverandi umhverfisráðherra, fékk.
Fjallað var fyrst um málið í fréttum og Kastljósi Sjónvarpsins þann 26. apríl og í kjölfarið var fjallað um málið í fleiri Kastljósþáttum. Jónína kærði þessa umfjöllun til siðanefndar Blaðamannafélags Íslands.
Í niðurstöðu sinni segir nefndin, að umfjöllun Sjónvarpsins um málið hafi verið röng og misvísandi og til þess fallin að gera Jónínu tortryggilega. Þetta eigi einkum við um upphaf umfjöllunarinnar, í pistli Helga Seljan 26. apríl. Rangfærslurnar hafi verið leiðréttar smám saman en engu að síður litað alla umfjöllunina.
„Fréttamaður lét undir höfuð leggjast að afla grundvallarupplýsinga í viðkvæmu máli. Þau vinnubrögð brjóta í bága við 3. gr. siðareglna Blaðamannafélags Íslands, en þar segir svo: „Blaðamaður vandar upplýsingaöflun sína, úrvinnslu og framsetningu svo sem kostur er og sýnir fyllstu tillitssemi í vandasömum málum. Hann forðast allt sem valdið getur saklausu fólki, eða fólki sem á um sárt að binda, óþarfa sársauka eða vanvirðu,“ segir siðanefndin, og kemst síðan að þeirri niðurstöðu, að Ríkisútvarpið og Helgi Seljan hafi brotið 3. grein siðareglna og brotið sé alvarlegt.