Súdan og Írak eru verstu lönd í heimi samkvæmt lista, sem stofnunin Fund for Peace ásamt tímaritinu Foreign Policy Magazine hafa birt í þriðja skipti. Lagt er mat á ástandið í 177 ríkjum út frá 12 mælikvörðum og er niðurstaðan þessi. Best heppnuð eru Noregur, Finnland og Svíþjóð en Ísland og Danmörk eru í 7. og 8. sæti.
Á listanum eru ríki heims vegin og metin út frá efnahagslegum, félagslegum, pólitískum og hernaðarlegum mælikvörðum. Írak hefur hækkað jafnt og þétt á þessum lista eftir innrásina í landið árið 2003. Í fyrra var landið í 4. sæti en er nú í 2. sæti eins og áður sagði. Afganistan er einnig í hópi 10 misheppnuðustu ríkjanna.
Í skýrslu, þar sem gerð er grein fyrir mælikvörðunum, segir að reynslan í Írak og Afganistan sýni, að ekki sé nóg að verja milljörðum dala í þróunaraðstoð og til að styrkja öryggismál en ekki séu til staðar starfhæf ríkisstjórn, trúverðugir leiðtogar og þróaður efnahagur.