silja@mbl.is
Alcan á Íslandi kannar nú þann möguleika að stækka álver sitt í Straumsvík með því að byggja landfyllingu út í sjó. Hugsanlegt er að slík landfylling gæti tengst fyrirhugaðri uppbyggingu og hafnarframkvæmdum hjá Hafnarfjarðarhöfn. Þetta segir Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri í Hafnarfirði, en hann átti í gær fund með erlendum og innlendum ráðamönnum Alcan, þeirra á meðal Rannveigu Rist, forstjóra Alcan á Íslandi, og Michel Jacques, forstjóra Alcan Primary Metal Group.
Spurður hvernig sér lítist á fyrrgreinda hugmynd segir Lúðvík fulla ástæðu til að skoða hana. "Mér finnst skipta máli að Alcan haldi áfram starfsemi hérna," segir Lúðvík og tekur fram að hann telji það ekki inni í myndinni eins og málin standi núna að Alcan flytji starfsemi sína í annað sveitarfélag.
Ráðamenn Alcan funda í dag með iðnaðarráðherra. Alcan hefur leitað eftir því hjá sveitarstjórnum í Vogum og Þorlákshöfn hvort til greina komi að reisa þar álver. Íbúaþing verður haldið í Vogum í kvöld til að ræða málið.