Fjölmennur borgarafundur í Vogum á Vatnsleysuströnd samþykkti með miklum meirihluta nú í kvöld beiðni forseta bæjarstjórnar um að veita bæjarstjórninni umboð til að hefja viðræður við álfyrirtækið Alcan um byggingu álvers á Keilisnesi.
Um 140 manns mættu á fundinn og voru vel yfir 100 sammála því að veita þetta umboð.
Allmargir fundarmanna voru þó eindregið á móti því að álver verði reist, og voru rök þeirra þau að halda bæri bæjarfélaginu í núverandi stærð og sem þeirri náttúruperlu sem það sé. Þeir sem fylgjandi voru lögðu áherslu á framtíðaratvinnumöguleika og tekjur fyrir sveitarfélagið.