Ferðamálafélag Flóamanna á móti virkjun

Urriðafoss í Þjórsá
Urriðafoss í Þjórsá mbl.is/Sigurður Jónsson

Ferðamálafélag Flóamanna hefur sent áskorun til sveitarstjórnar Flóahrepps vegna Urriðafossvirkjunar þar sem fyrirætlunum um Urriðafossvirkjun er mótmælt.

„Landsvirkjun hyggst þröngva sínum fyrirætlunum inn á aðalskipulag heimamanna og beitir til þess ýmsum aðferðum. Umhverfismat var gert fyrir alllöngu. Það verður að teljast úrelt þar sem fjölmargar forsendur eru gjörbreyttar. Nægir þar að nefna hina ört vaxandi aðsókn ferðamanna að fossinum, en samkvæmt talningu sem Vegagerðin gerði að beiðni ferðamálafulltrúa má reikna með að ekki færri en 30.000 manns heimsæki fossinn árlega.

Einnig hefur aðilum í ferðaþjónustu fjölgað mikið á svæðinu, en þeir treysta m.a. á að fossinn muni laða ferðafólk inn á svæðið, þó hér sé fjöldamargt annað skoðunarvert. Umhverfismatið var barið í gegn á mjög vafasömum forsendum og kærði ég það út í alla enda þegar það fór fram. Þá var ég nánast sá eini sem opinberlega hafði áhyggjur af samfélagslegum áhrifum virkjunarinnar, en nú er andstaðan mjög almenn. Hef ég haldið uppi andófi síðan, en um leið sett fram og unnið að varakröfu og úrlausn fyrir hönd ferðaþjónustunnar, fari svo illa að virkjað verði. Um það og fleira má lesa á heimasíðu Ferðamálafélags Flóamanna; www.floi.is.

Andstæðingar virkjunar eru nú mjög fjölmennir. Komu nokkrir þeirra saman í Félagsheimilinu Þjórsárveri nýlega og ræddu málin. Síðan hefur verið haft samband við aðra, bæði innan hrepps og utan, og komið hefur í ljós að andstaða við virkjanaáformin er mjög almenn og vex dag frá degi. Íbúafundur verður í félagsheimilinu og menningarmiðstöðinni Þjórsárveri nk. mánudagskvöld, þar sem sveitarstjórn Flóahrepps hyggst ræða aðalskipulag Villingaholtshrepps, sem nú er orðinn hluti af Flóahreppi. Væntanlega verða heitar umræður á þeim fundi og hart deilt á frammistöðu sveitarstjórnar Flóahrepps á síðustu metrunum. Sveitarstjórnin sýndi mikla röggsemi þegar hún tilkynnti að aðalskipulagið yrði lagt fram án þess að gert væri ráð fyrir virkjuninni. En hún setti jafnmikið ofan þegar hún, eftir fund með forstjóra Landsvirkjunar, gaf kost á að virkjun yrði áfram inni á skipulaginu. Ekki hefur enn verið upplýst hvaða aðferðum forstjórinn beitti til að ná þessum sinnaskiptum fram," að því er fram kemur í áskorun Ferðamálafélags Flóamanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka