Fulltrúar vestfirskra sveitarfélaga kynna sér olíuhreinsistöðvar

Útlit er fyrir að alls 8 fulltrúar frá Ísafjarðarbæ og Vesturbyggð skoði olíuhreinsunarstöðvar í Hollandi og Þýskalandi dagana 2.-6. júlí. Ferðin er farin til upplýsingaöflunar, en með í för verða erlendir ráðgjafar og fulltrúar frá Íslenskum hátækniiðnaði og Fjárfestingastofu, alls 14 manns.

„Því miður urðum við að takmarka heildarfjölda þeirra sem fara í ferðina þar sem menn ytra treystu sér ekki til að taka við fleirum“, segir Aðalsteinn Óskarsson, framkvæmdastjóri Fjórðungssambands Vestfirðinga. „Tillaga okkar er því sú að í þessa ferð fari fulltrúar frá Ísafjarðarbæ og Vesturbyggð og síðar verði skoðað hvort hægt verði að fara aðra ferð með fulltrúum hinna sveitarfélaganna.“

Aðalsteinn segir að þó hugmyndir um olíuhreinsunarstöð á Íslandi séu ekki nýjar af nálinni, hafi lítið gerst í þeim efnum síðustu tíu árin eða svo. „Íslendinga vantar upplýsingar til að geta fjallað almennilega um málið“, segir Aðalsteinn.

Farið verður til Rotterdam í Hollandi og þaðan til Leuna í Þýskalandi, en á síðarnefnda staðnum er stöð sem nýtir svipaða tækni og hugleitt er að nota hér á landi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert