fridrik@mbl.is
Íslenskir ríkisborgarar á leið til Bandaríkjanna þurfa að skrásetja ferðaáætlun sína 48 klukkustundum fyrir brottför, ef ný löggjöf heimavarnarráðuneytis Bandaríkjanna nær fram að ganga. Tillögur ráðuneytisins, sem hafa verið samþykktar af öldungadeild Bandaríkjaþings og bíða afgreiðslu fulltrúadeildar, hafa valdið talsverðum usla í þeim ríkjum sem samið hafa við bandarísk yfirvöld um 90 daga undanþágu frá vegabréfsáritun (Visa Waiver Program). Ísland er í hópi þeirra 27 þjóða sem segja má að njóti tiltölulega greiðs aðgangs að bandarískri grundu.
Líklegt er talið að 48 stunda reglan komi harðast niður á viðskiptafólki sem oft þarf að breyta ferðaáætlunum sínum á síðustu stundu. Talskona franska sendiráðsins í Washington, Nathalie Loiseau, segir í samtali við International Herald Tribune að evrópskir embættismenn vinni ásamt fulltrúum Bandaríkjaþings hörðum höndum að eflingu samskipta þjóða beggja vegna Atlantshafsins. Að leggja fleiri steina í götu þeirra Evrópubúa sem ferðast vilja til Bandaríkjanna samræmist ekki þeirri viðleitni.
Enn sem komið er geta Íslendingar ferðast til Bandaríkjanna án áritunar eða skrásetningar á ferðalagi, ef ætlunin er að dveljast þar í landi skemur en í 90 daga.
Sjá nánar í Morgunblaðinu í dag.