Innra starf Íslandshreyfingarinnar verður eflt

Forsvarsmenn Íslandshreyfingarinnar.
Forsvarsmenn Íslandshreyfingarinnar. mbl.is/Rax

Íslandshreyfingin segir, að áfram verði haldið því starfi sem hófst fyrir alþingiskosningarnar og staðin vörður um þau gildi sem boðuð voru í kosningabaráttunni. Segir Íslandshreyfingin, að atburðir síðustu vikna sýni að full þörf sé á áframhaldandi starfsemi og uppbyggingu flokksins.

Tilkynning Íslandshreyfingarinnar er eftirfarandi:

    Íslandshreyfingin þakkar hátt á annað hundrað frambjóðendum og þúsundum hugsjónafólks fyrir fórnfýsi og stuðning í nýafstaðinni kosningabaráttu.

    Stjórn hreyfingarinnar telur atburði síðustu vikna sýna að full þörf sé á áframhaldandi starfsemi og uppbyggingu flokksins á grunni þess starfs sem unnið var í aðdraganda síðustu kosninga.

    Stjórnarsáttmálinn og skoðanaskipti ráðherra sýna að engin trygging er fyrir því að meira hlé verði á stóriðjuframkvæmdum en orðið hefði með óbreyttri stjórn.

    Samfylkingunni tókst ekki að fá það fram í stjórnarsáttmálanum að beðið verði eftir ítarlegri úttekt á náttúruverðmætum landsins, - og nú er í fullum gangi undirbúningur fyrir álver í Helguvík, Þorlákshöfn og við Húsavík.

    Ekkert liggur ákveðið fyrir um að hætt verði við virkjanir við Norðlingaöldu, í neðri hluta Þjórsár, Krýsuvík, Grændal, Gjástykki og á fleiri virkjunarsvæðum.

    Tveimur dögum fyrir kosningar var veitt rannsóknarleyfi í Gjástykki sem getur orðið upphafið að margfalt meiri umhverfisspjöllum á svæðinu fyrir norðaustan og austan Mývatn en þjóðin gerir sér nokkra grein fyrir.

    Í ljósi all þessa er afar mikilvægt að efla Íslandshreyfinguna , styrkja innviði hennar og slagkraft, svo hún megni að veita það aðhald sem brýn þörf er á.

    Það snertir ekki aðeins mestu verðmætin á forræði þjóðarinnar, einstæða náttúru Íslands og hagsmuni ófæddra kynslóða, heldur einnig það að eignarhald yfir auðlindum lands og sjávar færist ekki á hendur örfárra stórfyrirtækja í enn meira mæli en orðið er.

    Íslandshreyfingin tekur alvarlega skyldur sínar í þágu þeirra 6000 kjósenda sem treystu henni fyrir atkvæði sínu. Undirbúningur flokksstarfsins á komandi misserum hefur þegar verið hafinn .

    Það er því ljóst að Íslandshreyfingin mun halda starfi sínu áfram og standa vörð um þau gildi sem boðuð voru í kosningabaráttunni og lesa má um á heimasíðunni www.islandshreyfingin.is.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert