Íslendingur lenti í vopnuðu ráni í Kaupmannahöfn

Frá Kaupmannahöfn.
Frá Kaupmannahöfn. mbl.is/Brynjar Gauti

Maður réðist inn í hót­eland­dyri Hót­el Ans­gar á Vest­ur­brú í miðborg Kaup­manna­hafn­ar í gær­kvöldi, þar sem Guðjón Ingi Ei­ríks­son var stadd­ur. Ræn­ing­inn beindi að Guðjóni byssu og skipaði hon­um að leggj­ast í gólfið.

„Þetta gerðist hérna í lobbý­inu á hót­el­inu okk­ar í gær­kvöldi. Ég sá hettu­klædd­an mann ganga inn, beina byssu að mann­in­um í af­greiðslunni og heimta pen­inga. Síðan snéri hann sér að mér og skipaði mér að leggj­ast niður á gólfið,“ sagði Guðjón, sem er í fríi í borg­inni ásamt konu sinni og tveim­ur börn­um, í sam­tali við frétta­vef Morg­un­blaðsins í dag. Hann var stadd­ur einn í and­dyri hót­els­ins, auk starfs­manni af­greiðslunn­ar.

Um 20 sek­únd­um síðar heyrði Guðjón ræn­ingj­ann hlaupa út að hjóli, sem reynd­ist vera flótta­leið hans, en starfsmaður hót­els­ins fylgdi hon­um eft­ir. Byss­an reynd­ist vera leik­fang og yf­ir­bugaði starfsmaður­inn ræn­ingj­ann fyr­ir utan hót­elið og hélt hon­um þar til lög­regl­an kom á vett­vang.

„Ég eyddi gær­kvöld­inu við skýrslu­tök­ur á lög­reglu­stöðinni, en þegar þeim var lokið buðust þeir ekki einu sinni til þess að keyra mig heim. Það þótti mér dóna­legt,“ seg­ir Guðjón en hlær þó að öllu sam­an.

Hót­el­rán­um í Kaup­manna­höfn hef­ur farið fjölg­andi und­an­farið og seg­ir lög­regl­an að slík rán séu álit­in „auðveld­ur pen­ing­ur“ því í mót­tök­unni standi yf­ir­leitt aðeins einn starfsmaður, sam­kvæmt frétt Berl­ingske Tidende í gær.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert