Íslendingur lenti í vopnuðu ráni í Kaupmannahöfn

Frá Kaupmannahöfn.
Frá Kaupmannahöfn. mbl.is/Brynjar Gauti

Maður réðist inn í hótelanddyri Hótel Ansgar á Vesturbrú í miðborg Kaupmannahafnar í gærkvöldi, þar sem Guðjón Ingi Eiríksson var staddur. Ræninginn beindi að Guðjóni byssu og skipaði honum að leggjast í gólfið.

„Þetta gerðist hérna í lobbýinu á hótelinu okkar í gærkvöldi. Ég sá hettuklæddan mann ganga inn, beina byssu að manninum í afgreiðslunni og heimta peninga. Síðan snéri hann sér að mér og skipaði mér að leggjast niður á gólfið,“ sagði Guðjón, sem er í fríi í borginni ásamt konu sinni og tveimur börnum, í samtali við fréttavef Morgunblaðsins í dag. Hann var staddur einn í anddyri hótelsins, auk starfsmanni afgreiðslunnar.

Um 20 sekúndum síðar heyrði Guðjón ræningjann hlaupa út að hjóli, sem reyndist vera flóttaleið hans, en starfsmaður hótelsins fylgdi honum eftir. Byssan reyndist vera leikfang og yfirbugaði starfsmaðurinn ræningjann fyrir utan hótelið og hélt honum þar til lögreglan kom á vettvang.

„Ég eyddi gærkvöldinu við skýrslutökur á lögreglustöðinni, en þegar þeim var lokið buðust þeir ekki einu sinni til þess að keyra mig heim. Það þótti mér dónalegt,“ segir Guðjón en hlær þó að öllu saman.

Hótelránum í Kaupmannahöfn hefur farið fjölgandi undanfarið og segir lögreglan að slík rán séu álitin „auðveldur peningur“ því í móttökunni standi yfirleitt aðeins einn starfsmaður, samkvæmt frétt Berlingske Tidende í gær.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert