Ökumaður sem leið átti um Skutulsfjarðarbraut á Ísafirði vissi ekki hvaðan á hann stóð veðrið þegar hann ók fram úr skjaldböku sem leið átti um veginn á tólfta tímanum í dag.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu var skjaldbakan, sem vegur 1,2 kg, á hægri ferð norður veginn en þarna er 60 km. hámarkshraði. Skjaldbökunni var boðið far á lögreglustöðina á Ísafirði hvar hún hvíldi lúin bein.
Ekki er vitað hvaðan skjaldbakan kom en grunur leikur á að hún hafi stungið eiganda sinn af. Náttúrustofa Vestfjarða fékk dýrið til varðveislu en innflutningur slíkra dýra er bannaður.