Áhöfnin á Syn, eftirlitsflugvél Landhelgisgæslunnar, stóð skipstjóra á fiskibát að meintum ólöglegum línuveiðum inni í lokuðu hólfi 7,8 sjómílur norðvestur af Deild um hádegisbilið í gær. Skyndilokun á svæðinu hafði verið auglýst 15. júní sl. samkvæmt heimild í lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og gildir hún til 29. þessa mánaðar. Landhelgisgæslan sendi kæru til Lögreglustjórans á Vestfjörðum sem er nú með málið til meðferðar.
Í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni kemur fram að skyndilokunum er ætlað að koma í veg fyrir skaðlegar veiðar.
Viðurlög við brotum af þessu tagi eru sektir og upptaka afla og veiðarfæra. Viðurlögin eru misþung eftir því hversu alvarleg brotin eru og hvort um ítrekun er að ræða, samkvæmt tilkynningu.