Varað við naglamottum

Baráttufundur til fækkunnar bifhjólaslysa á síðasta ári
Baráttufundur til fækkunnar bifhjólaslysa á síðasta ári mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

Stjórn Road Race deildar Akstursíþróttafélags Hafnarfjarðar hefur sent frá sér tilkynningu vegna frétta um að formaður bifhjólaklúbbsins Postula mæli með því að naglamottur verði notaðar til að stöðva bifhjól sem sinna ekki stöðvunarmerkjum lögreglu. Er í yfirlýsingunni varað við því að afleiðingar þess að nota naglamottur geti verið ógnvænlegar bæði fyrir ökumann og þá sem í nágrenninu eru.

    Stjórn Road Race deildar Akstursíþróttafélags Hafnarfjarðar vill að eftirfarandi komi fram vegna greinar Morgunblaðsins 19 júní 2007 þess efnisað formaður bifhjólaklúbbsins Postular, Baldur Róbertsson, mælti með því að svokallaðar naglamottur yrðu notaðar til að stöðva bifhjól sem sinna ekki stöðvunarmerkjum lögreglu.

    Naglamottur eru notaðar víða um heim til að stöðva bifreiðar sem sinna ekki stöðvunarmerkjum lögreglu með ágætis árangri. Hinsvegar verður að gæta þess að naglamottur eru einungis notaðar sem örþrifaráð til að stöðva bifreiðar.

    Bandaríkjamenn ásamt Bretum nota þessar mottur talsvert, en þá aðeins á bifreiðar, ekki bifhjól. Afleiðingar þess að nota naglamottur til að stöðva bifhjól geta verið ógnvænlegar, bæði fyrir ökumann bifhjólsins sem og aðila sem kunna að vera í nágrenninu. Samkvæmt vinnureglum Alríkislögreglu Bandaríkjanna má aðeins nota naglamottur til að stöðva bifhjól ef það telst lagalega réttlætanlegt að ökumaður bifhjólsins geti látist af völdum þess (the use of deadly force). Þegar leyfi til að beita valdi af þessum alvarleika er verið að tala um glæpamenn sem eru stórhættulegir samfélaginu.

    Það er von og ósk okkar innan RR-AIH að umræður af þessu tagi séu ekki hafðar í flimtingum og tekið verði málefnalega á hraðakstursmálum þessa lands, þá hvort heldur um hraðakstur bifhjóla eða bifreiða sé að ræða.

    Sú lausn sem er farsælust, og mun færa hraðakstur af götum og vegum landsins er að færa tækin og hraðaksturinn á lokuð svæði sem byggð eru til æfinga og keppna bæði fyrir bifhjól og bifreiðar.

    Við skorum á ráðamenn þjóðarinnar að leysa málið, útvega malbikað svæði strax þar sem hægt er að stunda hraðakstur á ábyrgan hátt undir eftirliti.

    Stjórn RR-AÍH.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert