Dæmd í sekt fyrir að aka undir áhrifum fíkniefna

Héraðsdómur Suðurlands hefur dæmt konu í 180 þúsund króna sekt fyrir ítrekaðan akstur undir áhrifum amfetamíns og fleiri fíkniefna en konan var stöðvuð á Suðurlandsvegi við Hveragerði í desember sl. og á Eyrarbakkavegi í mars á þessu ári og var í bæði skiptin undir áhrifum fíkniefna.

Konan var einnig sakfelld fyrir vopnalagabrot en tvær gúmmíkylfur samfestar með keðju voru í bílnum þegar konan var stöðvuð við Hveragerði.

Konan hefur nokkrum sinnum áður verið dæmd fyrir brot gegn umferðarlögum og fíkniefnalögum, síðast í mars sl. en þá var hún dæmdu í 270 þúsund króna sekt og svipt ökuréttindum í 2 ár. Brotin sem konan var dæmd fyrir nú voru framin áður en sá dómur var kveðinn upp og er því um hegningarauka að ræða.

Konan var auk sektarinnar svipt ökuréttindum í eitt og hálft ár til viðbótar þeim tveimur árum sem fyrri dómurinn kvað á um.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert