Deilt um skipulag miðbæjar Selfoss

Töluverðar deilur standa nú um skipulagsmál í miðbæ Selfoss þar sem til stendur að byggja upp miðbæ með torgi, bæjargarði og þjónustu- og íbúðarbyggingum. Á meðal þess sem deilt er um er stæð garðsins annars vegar og byggingarmagn á svæðinu hins vegar. Hefur það m.a. verið gagnrýnt hversu mikinn nýtingarrétt fyrirtækið Miðjan fær á svæðinu en byggingarrétturinn er tilgreindur í samningi sem gerður var við fyrirtækið áður en fallið var frá áformum um byggingu tveggja hæða turna þar.

Ragnheiður Hergeirsdóttir, bæjarstjóri Árborgar segir að fallið hafi verið frá byggingu þeirra að frumkvæði bæjarins og að því sé sé bærinn bundinn fyrri samningi um nýtingarrétt vilji hann ekki alfarið rifta samningum við fyrirtækið. Þá segist hún telja þær tölur sem nefndar hafi verið varðandi hugsanlegt lóðaverð á svæðinu óraunhæfar en sú gagnrýni hefur komið fram að Miðjan hafi fengið þar allt of mikinn byggingarrétt fyrir allt of lítið mótframlag.

Ragnheiður segir aðra lóðaeigendur á svæðinu ekki hafa verið í sömu stöðu og Miðjuna ehf. og því minni samanburður á stöðu þessara aðila mest á samanburð á eplum og appelsínum. Gert sé ráð fyrir því að eigendur nokkurra einbýlishúsa vestast á svæðinu eigi byggingarétt á sínum lóðum þegar og ef þeir velji að byggja þar upp í samræmi við nýtt skipulag. Ekkert hafi hins vegar verið ákveðið varðandi Sigtúnshúsið, sem nokkuð hafi verið rætt um í þessu samhengi. Hún telji þó líklegast að það verði látið standa. Komi hins vegar til byggingaréttur á þeirri lóð muni hann fara sjálfkrafa til eiganda hússins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert