Fjárfestingarstofan hefur ásamt Hitaveitu Suðurnesja, Landsvirkjun, Orkuveitu Reykjavíkur, Farice hf. Símanum hf. og Teymi hf. látið framkvæma athugun á samkeppnishæfni Íslands fyrir staðsetningu svokallaðra netþjónabúa.
Í tilkynningu kemur fram að niðurstöðurnar eru mjög jákvæðar og staðfestar af þeim erlendu stórfyrirtækjum í upplýsingatækniiðnaði sem hingað hafa komið undanfarið til að skoða og meta aðstæður til uppsetningar netþjónabúa fyrir eigin starfsemi.
„Orkuþörf er mikil í þessari starfsemi m.a. vegna kælingar á búnaði. Alþjóðleg fyrirtæki í þessum geira leita stöðugt að umhverfisvænni og hagkvæmri orku. Hana er að finna á Íslandi. Minni kæliþörf sökum svalara loftslags hér á landi eykur síðan enn á samkeppnishæfnina," að því er segir í tilkynningu
Á blaðamannafundi í dag verður greint frá helstu niðurstöðum samkeppnisgreiningarinnar, auk þess sem iðnaðarráðherra og samgönguráðherra munu ræða afstöðu sína til orkuöflunar fyrir starfsemi af þessu tagi og fjárfestinga í fleiri fjarskiptasæstrengjum.