„Sæhestur" nam land í Straumfirði

Fólk sem dvaldi í sumarbústað sínum í Straumfirði á Mýrum í gær vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið þegar hestur kom syndandi af hafi og gekk á land. Fram kemur á fréttavef Skessuhorns, að ekki hafi fengist skýringar á þessu ferðalagi hestsins en helst sé talið að hann hafi strokið úr Hjörsey, sem þarna er ekki langt frá landi.

„Hesturinn skjögraði í land og var um klukkutíma að jafna sig. Hann skalf dálítíð fyrst en fór eftir svona klukkutíma að jafna sig og bíta gras. Við erum mikið að velta því fyrir okkur hvaðan hesturinn hefur komið og hvaða leið hann mögulega getur hafa synt,” segir Svanur Steinarsson í Straumfirði í samtali við Skessuhorn.

Hesturinn er nokkuð fullorðinn, grár og taminn. Hann er ekki á járnum en mjög spakur og þáði brauð hjá fólkinu í Straumfirði. Er lýst eftir eiganda sæhestsins sem nú dvelur í góðu yfirlæti í Straumfirði þar til eigandinn vitjar hans þar.

Skessuhorn

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka