Skilorðsbundið fangelsi fyrir að hóta sýslumanni lífláti

Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt karlmann á fimmtugsaldri í 30 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir að hringja í Inger L. Jónsdóttur, sýslumann á Eskifirði, í október á síðasta ári og hóta að drepa hann. Lét maðurinn m.a. þau orð falla, að hann ætlaði að nota tvo grimma hunda til verksins.

Símtalið var rakið til síma sakborningsins, sem býr á Reykjanesi. Viðurkenndi maðurinn að hafa hringt í Inger og sagðist hafa um tíma búið á Neskaupstað og reynt að kæra tiltekið mál til sýslumannsembættisins en án árangurs.

Í yfirheyrslum hjá lögreglu viðurkenndi maðurinn að hafa hótað Inger í símtalinu. Sagðist maðurinn hafa verið drukkinn og iðrast þessa mjög. Fyrir dómi breytti maðurinn framburði sínum og sagðist ekki hafa hótað Inger lífláti í símtalinu en viðurkenndi að hafa verið reiður og dónalegur.

Í dómnum segir, að maðurinn hafi ekki gefið trúverðugar skýringar á breyttum framburði sínum og ekki væri hægt að fallast á þær röksemdir verjanda mannsins, að svör sem bókuð séu eftir honum í lögregluskýrslu megi rekja til leiðandi spurninga rannsakara. Fyrir liggi myndbandsupptaka af umræddri skýrslutöku, sem dómari hafi horft á og fái röksemdir verjandans ekki stoð í þeirri myndbandsupptöku.

Þá hafi vitni heyrt manninn tala í síma umrætt kvöld og tala um að siga hundum á viðmælanda sinn. Loks hafi framburður Inger verið staðfastur og í samræmi við önnur sakargögn. Því þykir sannað, að maðurinn hafi hringt í Inger L. Jónsdóttur í tvígang og hótað henni lífláti og hafi sagst ætla að nota tvo grimma hunda til verksins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert