Borgarráð vísaði í dag frá tillögu frá fulltrúum minnihlutans í ráðinu um að þeim tilmælum verði beint til stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur að aflétta með formlegum hætti þeirri leynd, sem nú hvílir á raforkuverði í fyrirliggjandi samningi milli Norðuráls og Orkuveitunnar.
Í tillögu fulltrúa VG og Samfylkingarinnar og áheyrnarfulltrúa Frjálslynda flokksins segir að engin rök mæli með leyndinni og brýnt sé að almenningur, eigendur Orkuveitu Reykjavíkur, sé upplýstur um verðið.
Í frávísunartillögu Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks er tekið undir þá skoðun fulltrúa flokkanna tveggja í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur, að til lengri tíma væri skynsamlegra að aflétta leynd af raforkuverði til stóriðju, m.a. til að koma í veg fyrir rangtúlkanir og misskilning sem borið hefur á í umræðunni. Í þessu tilfelli hafi samningsaðili OR hins vegar óskað eftir því að farið verði með raforkuverðið sem trúnaðarmál og við því verði orðið.