Fastanúmer bíla, sem skráð hafa verið frá árinu 1970, eru nú uppurin og hafa verið gerðar breytingar á númerakerfinu til að stækka pottinn. Koma þær breytingar til framkvæmda í næstu viku, samkvæmt upplýsingum frá Umferðarstofu.
Hingað til hafa númerin verið þannig að fyrst koma tveir bókstafir og síðan þrír tölustafir. Með núverandi fyrirkomulagi gefst kostur á útgáfu samtals rúmlega hálfrar milljónar númera og miðað við undanfarin ár er u.þ.b. 30 þúsund nýjum fastanúmerum úthlutað á ári.
Með því að bæta bókstöfum við tölustafina í þriðja dálk númersins er hægt að stækka mögulegan númerafjölda upp í rúmar tvær milljónir númera. Hingað til hafa fastnúmer öll verið á forminu „AB 123" en geta nú einnig verið „AB C23". Gert er ráð fyrir því að með þessu breytta fyrirkomulagi sé hægt að gefa út fastanúmer næstu 50 árin.
Umferðarstofa segir, að þessi breyting eigi ekki að hafa í för með sér kostnaðarauka fyrir hlutaðeigandi aðila. Ekki sé verið að skipta út því kerfi sem fyrir er heldur verið að gera lítilvæga breytingu sem stuðlar að auknum fjölda fastanúmera. Hinsvegar þurfa fyrirtæki og stofnanir, sem starfs síns vegna þurfa að vinna með skráningu bílnúmera, mögulega að gera viðeigandi breytingar á sínum tölvukerfum.