Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, lýsir þeirri skoðun á heimasíðu sinni að koma eigi fiskirannsóknum fyrir í öðru ráðuneyti en því, sem tekur ákvarðanir um heildaraflamark. Þær eigi annaðhvort að vera undir umhverfis- og auðlindaráðuneyti eða innan vébanda menntamálaráðuneytisins, þar sem háskólarnir fengju það hlutverk að fylgjast með og meta ástand stofna.
Össur segir m.a. að ofveiði á þorski megi rekja til þess, að stjórnmálamenn hafi á sínum tíma tekið rangar ákvarðanir um aflaregluna svokölluðu, sem segi hversu mikið megi veiða af stofninum. Aflareglan hafi verð fjarri því að vera pottþétt vísindi, þegar hún var sett fram á sínum tíma, undir yfirskini vísindalegra útreikninga.
Segir Össur að í hinni vísindalegu niðurstöðu, sem leiddi til aflareglunnar, hafi falist að ráðlegt væri að veiða 18-23% af stofninum árlega. Hún hafi líka borið í sér, að í vondum árum ætti að veiða nær 18%, en í góðum árum nær 23%. Líklega segi þetta að jafnaðarreglan hefði átt að vera rétt ríflega 20%.
„Í staðinn ákváðu stjórnmálamenn að aflareglan yrði föst stærð - 25%. Ég gagnrýndi þetta síðar, þegar ég skildi kerfisvilluna, en líklega ekki nógu fast, og örugglega fyrir algerlega daufum eyrum. Á mæltu máli þýðir þetta að líklega hafa stjórnmálamenn þannig byggt inn í kerfið reglubundna ofveiði sem nam fast að fjórðungi umfram það sem vísindin sögðu. Þetta er aðalástæðan fyrir ofveiðinni, og ástandi stofnsins. Hana má rekja beint til stjórnmálamanna, en ekki fiskifræðinga. Hina síðarnefndu má hins vegar ásaka fyrir að hafa látið stjórnmálamennina mýla sig, og fyrir að hafa ekki risið upp til harðra andmæla.
Þetta sýnir, hvað pólitísk stýring á vísindum er hættuleg, ekki síst þegar hvergi er að finna óháða rannsóknarstofnun, sem gæti í krafti akademísks frelsis leyft sér þann munað að nálgast niðurstöður Hafró á gagnrýninn hátt," segir Össur.